Háskerpa eða ekki háskerpa?

Í heimi sjónvarpa og tölvuskjáa rekst maður á ýmsar alhæfingar um hvað sé háskerpa og hvað ekki. Flestir kannast líklegast við stóra Elko bæklinga sem sýna heilu opnurnar af risa sjónvörpum sem flest ef ekki öll eru merkt sem einhverskonar háskerpu sjónvarp. Eitt er HD Ready, annað er Full HD, þriðja jafnvel merkt sem bæði. Á tímabili hafði ég ekki hugmynd um hvað allt þetta stóð fyrir, og ekki mikinn áhuga heldur þar sem engin sjónvarpskaup voru á dagskránni. Einhversstaðar heyrði ég að Full HD væri 1920x1080 upplausn og að það væri alvöru háskerpa, á meðan HD Ready væri minni upplausn og þess vegna ekki alvöru háskerpa, sem hljómaði ekkert ósennilega, svo ég lét þá þekkingu nægja. Nýlega sá ég hinsvegar auglýsingu á fartölvum þar sem upplausnir frá 1280x800 upp í1680x1050 voru allar sagðar vera háskerpu upplausnir (High Definition). Þetta angraði mig nokkuð, og þar sem gamla túbusjónvarpið okkar er farið að vera svolítið móðugt og við höfum nýlega verið að hugleiða sjónvarpskaup, ákvað ég að rannsaka nú málið aðeins betur.

Fyrsta skrefið mitt var náttúrulega að leita til google. Þar rakst ég á þessa grein sem útskýrði hugtök eins og 720p og 1080i, sem var allt eitthvað sem mig rámaði í að hafa rekist á áður en aldrei vitað hvað þýddu. Svo virðist sem háskerpu sjónvarpsútsendingar komi á tveim formum, 720p(sem er 1280x720 upplausn) og 1080i(sem er 1920x1080 upplausn). Í framhaldinu fór ég á wikipediu og las mér meira til. Ég komst að því að p-ið stendur fyrir progressive scan og i-ið fyrir interlaced, sem eru bæði aðferðir sem sjónvarpsskjáir nota til að birta hvern ramma af myndefninu. Progressive scan birtir einfaldlega hvern ramma hvern á eftir öðrum. Interlaced breytir bara annarri hverri línu á skjánum í einu, en gerir það helmingi hraðar en progressive, svo heill nýr rammi fæst á sama tíma. Talað var um að sú aðferð væri betri þegar mikið væri um að vera á skjánum, eins og í tölvuleikjum eða við sýningu íþróttaleikja, auk þess sem hún tæki minni bandvídd í útsendingu. Progressive gæfi hinsvegar almennt skýrari háskerpu gæði án nokkurs flökts.

HD Ready merkið

Nú þegar ég vissi meira um háskerpu sjónvarpsútsendingar hélt ég leit minni áfram að svari við spurningunni: hvað er háskerpu sjónvarp? Ég rakst á hugtakið HD Ready 1080p, sem talað var um að væri betra en almennt Full HD. Þar sem ég þekkti HD Ready sem verra skimaðist ég betur fyrir. Leiðin lá á þessa síðu. Þar fann ég loksins nákvæmlega upplýsingarnar sem ég var að leitast eftir. HD Ready og HD Ready 1080p er alls ekki það sama. Sjónvörp merkt sem HD Ready geta sýnt bæði 720p og 1080i útsendingar, svo maður myndi halda að það myndi nægja. En þá kemur upp spurningin: viltu geta horft á Blu-ray í fullum gæðum?

Full HD

Blu-ray diskar eru í 1080p gæðum, sem HD Ready sjónvörp geta kannski alveg sýnt mjög vel, en ekki í fullum gæðum. Full HD sjónvörp eru vissulega í 1080p gæðum, en ekki öll þeirra geta tekið við merkjum á staðal tíðnunum 24Hz, 50Hz og 60Hz. HD Ready 1080p merkið þýðir að sjónvarpið stenst allar þær kröfur sem 1080p sendingar krefjast. 

hdready1080p_ne1188470586.jpg Loksins virtist þetta vera að skýra sig. Ef "lággæða"háskerpu sjónvarp nægði mér væri HD Ready alveg nóg, ef full Blu-ray gæði væru nauðsynleg var Full HD nóg, en ef ég vildi að sjónvarpið mitt gæti tekið við hugsanlegum framtíðar 1080p staðal útsendingum væri HD Ready 1080p skilyrði. Þar sem tæknin heldur áfram að fljúga fram á við og allt í sjónvarps heiminum er alltaf að verða stærra og stærra held ég að ég reyni að skella mér á eitt slíkt. Það er að segja, ef ég hef efni á því.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband